Stjórn

Hjörtur Ragnarsson hjortur@faerni.is 696-3546
Hólmfríður Fjóla Zoëga Smáradóttir hofifjola@gmail.com 770-3873
Rannveig Júlíusdóttir hofifjola@gmail.com 770-3873

Sagan

Upphafið

23.júní 1960 var boðað til stofnfundar ungmennafélags í Meitilsbyggingunni, sem var fiskvinnslufyrirtæki í Þorlákshöfn. Jónas Ingimundarson var einn af upphafsmönnum félagsins og fyrsti formaður þess. Í fyrstu stjórninni sátu auk Jónasar, Guðmundur Sigurðsson gjaldkeri og Pálheiður Einarsdóttir ritari. Ása Bjarnadóttir og Hörður Björgvinsson voru meðstjórnendur. Aðrir stofnfélagar voru Júlí Hjörleifsson, Guðfinna Karlsdóttir, Ásta Karlsdóttir, Guðbjörg Björgvinsdóttir, Gunnar Snorrason, Ingólfur Sigurlaugsson, Bjarni Valdimarsson, Gestur Ámundason og Garðar Guðmundsson. Á fundinum var rætt um nafn félagsins og komu nokkur til greina en að lokum var samþykkt að það skyldi heita Ungmennafélagið Þór. Stjórnin starfaði í eitt ár.

Fyrstu árin 1960 – 1963

Á þessum tíma byggðist starf félagsins aðallega á skemmtunum en Benedikt Thorarensen sem var framkvæmdastjóri Meitilsins, lánaði unga fólkinu mötuneytið til skemmtanahalds. Á þessum árum var engin íþróttaaðstaða í Þorlákshöfn en það safnaðist upp gróði í sjóð félagsins í gegnum skemmtanahaldið. Árið 1963 var keyptur einn fótbolti og einn handbolti. En menn fundu svæði til að stunda þessar íþróttagreinar á. Ekki eru heimildir um hverjir sátu í stjórn á þessum árum.

Aðild að HSK 1964 – 1965

Umf. Þór sótti um aðild að Héraðssambandinu Skarphéðni árið 1964 en þá var Sigurður Helgason formaður félagsins. Áfram stundaði unga fólkið knattspyrnu og handbolta en einnig eru heimildir um að einhverjir hafi verið byrjaðir að stunda frjálsar íþróttir.

Glímukennsla í Barnaskólanum

Árið 1967 var Þór Jens Gunnarsson formaður umf. Þórs. Íþróttir fóru að vera meira áberandi og voru m.a. keypt áhöld fyrir kastgreinar í frjálsum íþróttum. Fenginn var glímukennari og var boðið uppá glímukennslu í einni skólastofu barnaskólans í Þorlákshöfn. Áfram voru samt skemmtanir og önnur afþreying áberandi í starfinu og fóru félagsmenn í berjatínslu og uppgræðsluverkefni.

Upphaf þátttöku í íþróttamótum

Árið 1968 fóru félagsmenn að taka þátt í mótum á vegum HSK en 20 einstaklingar stunduðu knattspyrnu, 1 glímu og 15 frjálsar íþróttir. Á unglingamóti HSK í frjálsum íþróttum fékk félagið 13 stig í heildarstigakeppninni og 1,5 stig í Héraðsmótinu í sundi. Lítið er um heimildir hverjir kepptu í þessum greinum en vitað er að Davíð Ó. Davíðsson hljóp 400 m hlaup á tímanum 59,8 sem var með betri tímum innan HSK það árið. Sundlaug var ekki í Þorlákshöfn en íbúar fóru í sund í Sundlaugina Laugaskarði í Hveragerði og fór sundkennsla barnaskólans fram þar.

Árið 1969 urðu miklar breytingar hjá félaginu og var áhersla starfsins meiri á íþróttaþátttöku heldur en skemmtanir. Áfram voru bæjarbúar og félagsmenn í samfélagsverkefnum eins og hreinsunarstörfum og landgræðslu en uppgræðsla á Þorlákshafnarsandi var stórt verkefni. Þátttaka í mótum á vegum HSK fór vaxandi og kepptu félagsmenn í bikarkeppni HSK í knattspyrnu í nýjum og glæsilegum búningum, rauðum treyjum og sokkum og hvítum stuttbuxum. Í 1. umferð mótsins keppti liðið á móti Stokkseyri og sigraði 4 – 2 en síðan varð liðið að sætta sig við tap í 2. umferð á móti B-liði Selfoss.